top of page

Hypnobirthing spurning

Writer's picture: Helga ReynisdóttirHelga Reynisdóttir

Góðan dag.

Ég hef verið að hlusta á fæðing­ar­sög­ur og alls kyns ráð á net­inu (nán­ar til­tekið youtu­be) og þar er mikið verið að tala um mátt hug­ans í fæðingu. Sjálf lærði ég „hypnobirt­hing“ og var í meðgöngujóga nán­ast alla meðgöng­una og taldi mig vel und­ir­búna til að tak­ast á við fæðingu sem ég bjóst við að yrði hröð og auðveld því hug­ur­inn var svo vel und­ir­bú­inn. Svo var fæðing­in tveir sól­ar­hring­ar með alls kyns inn­grip­um, allt öðru­vísi en ég hafði vonað.

Öll vinn­an fram að því auðveldaði mér að vísu að tækla það sem kom upp í fæðing­unni en það sem sit­ur í mér eru full­yrðing­ar sem maður heyr­ir frá mörg­um mæðrum á net­inu um að lík­am­inn geri bara það sem hug­ur­inn seg­ir hon­um að gera. Þannig að óhlýðnaðist lík­ami minn? Ég sagði hon­um að ég ætlaði að eiga auðvelda, sárs­auka­lausa og snögga fæðingu. Hversu mik­inn þátt spil­ar hug­ur­inn í þessu?

Ein­hver sagði að það væri ekki nóg að end­ur­taka já­kvæðar staðhæf­ing­ar held­ur yrði maður að trúa þeim inn við beinið, í lík­am­an­um. Og að áföll og sam­fé­lags­leg áhrif gætu truflað það. Sem sagt á ég mér viðreisn­ar von fyr­ir fæðingu núm­er tvö? Get ég átt hraðari og auðveld­ari fæðingu? Og þá hvernig?

Kær­ar kveðjur,

mútt­an.

Sæl kæra kona. Ég ráðfærði mig við Emblu Ýri Guðmunds­dótt­ur sem er snill­ing­ur á sviði „hypnobirt­hing“, hér er svarið henn­ar:

„Sæl, mútta.

Frá­bært að sjá að þú und­ir­bjóst þig vel meðal ann­ars með því að læra „hypnobirt­hing“ og að vera í meðgöngujóga á síðustu meðgöngu. Und­ir­bún­ing­ur fyr­ir fæðingu er góð leið til að þú öðlist færni í að þróa þín eig­in bjargráð sem eru styðjandi fyr­ir þig per­sónu­lega og sem þú get­ur sjálf tengt til­finn­ingu um vellíðan. Nú veit ég ekki alla þína fæðing­ar­sögu en það er lík­legt að þú haf­ir þurft að ganga í gegn­um áskor­an­ir sem kannski varð til þess að upp­lif­un þín af fæðing­unni var ekki í sam­ræmi við vænt­ing­arn­ar sem þú hafðir, sam­an­ber „að bú­ast við hraðri og auðveldri fæðingu“. Sum­ar áskor­an­ir í fæðing­unni eru ein­fald­lega nokkuð sem góður und­ir­bún­ing­ur og hug­ar­far get­ur ekki haft stjórn á eða komið í veg fyr­ir, eins og til dæm­is þegar koll­ur barns kem­ur ekki rétt niður í grind­ina, veik­indi móður eða eitt­hvað slíkt. Þannig að sem svar við þinni spurn­ingu um hvort lík­am­inn hafi óhlýðnast þér þá er það stutt: nei. Hann gerði það ekki. Hann var að reyna sitt besta miðað við aðstæður. Hug­ur­inn get­ur haft mik­il áhrif á líðan þína í fæðing­unni og upp­lif­un þína á henni en hann get­ur því miður ekki stjórnað fæðing­ar­ferl­inu.

En núna er komið að ann­arri fæðingu og þá er mik­il­vægt að fókus­inn þinn fari þangað, eins og þú ger­ir í bréf­inu. Þá get­urðu gert það sem í þínu valdi stend­ur til að eiga góða upp­lif­un og til að þér líði vel í fæðing­unni sem fram und­an er. Þætt­ir sem geta haft áhrif á líðan þína í þeirri fæðingu eru meðal ann­ars stuðning­ur, sem er mjög mik­il­væg­ur þátt­ur í fæðingu og á ég þá við stuðning eins og nær­veru þíns stuðningsaðila og ljós­móður sem fylg­ir þér í fæðing­unni, virka aðstoð sem þú færð í fæðing­unni, það að ósk­ir þínar séu virt­ar, að stuðningsaðila þínum sé veitt­ur stuðning­ur, þá verkj­astill­ingu sem þú þarft á að halda, að þú get­ir nýtt þér þín eig­in bjargráð (eins og „hypnobirt­hing“ og jóga), kvíðastill­ingu og aukið sjálfs­traust. Svo er ann­ar þátt­ur sem hef­ur mik­il áhrif á líðan þína í fæðing­unni (fyr­ir utan stuðning­inn) og það er til­finn­ing um stjórn, það að þú get­ir sjálf tekið þátt í þinni eig­in fæðingu, get­ir tekið upp­lýst­ar ákv­arðanir, fáir upp­lýs­ing­ar og út­skýr­ing­ar og náir að stjórna þinni orku í fæðing­unni og þar kem­ur „hypnobirt­hing“ meðal ann­ars inn í. Með „hypnobirt­hing“ lær­ir þú tækni til að ná fram djúpslök­un í fæðing­unni og þar er mik­il áhersla á að kon­ur treysti sín­um lík­ama og vinni með hon­um í fæðing­unni í stað þess að spenn­ast upp og vinna á móti lík­am­an­um og fæðing­unni, þá er hægt að ná ákveðinni upp­lif­un af stjórn með því að vera í djúpslök­un meðan á sam­drátt­un­um stend­ur. En til að ná þess­ari tækni yf­ir­höfuð þarf að æfa sig og til að ná tækn­inni meðan á sam­drátt­um stend­ur, þ.e. und­ir álagi, þarf að æfa sig vel. En ekki mis­skilja mig, ég er alls ekki að gefa í skyn að þú haf­ir ekki æft þig nóg á síðustu meðgöngu, alls ekki. Það er mik­il­vægt að hafa raun­hæf­ar vænt­ing­ar til fæðing­ar­inn­ar og vita það að hún er mögnuð í öllu sínu veldi, hún er rosa­lega erfið en al­gjör­lega stór­kost­leg. Og ef áskor­an­ir koma upp í fæðing­unni sem þú get­ur ekki haft áhrif á (eins og til dæm­is veik­indi eða koll­ur sem kem­ur ekki rétt niður í grind) þá skipt­ir enn frem­ur máli að sjá og eiga fal­legu augna­blik­in í ferl­inu, eiga góða minn­ingu og ég fæ það á til­finn­ing­una þegar ég les text­ann þinn að þú haf­ir átt góðar stund­ir þrátt fyr­ir öðru­vísi fæðingu en þú hafðir vonað.

Í „hypnobirt­hing“ er líka lögð áhersla á að vinna úr erfiðri reynslu, losa um kvíða og eiga góða upp­lif­un þó að hún hafi verið öðru­vísi en þú hélst. Til dæm­is ef þú ákveður að fara til Ítal­íu og svo stopp­ar flug­vél­in í Hollandi og þú færð engu um það ráðið. Hol­land er ekki Ítal­ía, þú sem varst búin að læra ít­ölsku og kynna þér Ítal­íu og varst búin að hlakka til að borða ít­alsk­an mat og upp­lifa Ítal­íu í öllu sínu veldi. Þá er mik­il­vægt að syrgja ekki Ítalíu­ferðina því þá sérðu ekki allt það ein­staka sem Hol­land hef­ur upp á að bjóða. Þú get­ur átt fal­leg­ar stund­ir í Hollandi, og ein­staka upp­lif­un, kynnt þér hol­lenska list sem dæmi. Skil­urðu mig? Þessi dæmi­saga á við um síðustu fæðingu og líka sem und­ir­bún­ing­ur fyr­ir þá næstu.

Við höf­um öll mis­mun­andi vænt­ing­ar og reynsla hef­ur áhrif á næstu upp­lif­un og þá er mik­il­vægt að vinna úr þeirri reynslu ef þú tel­ur þig þurfa. Þá get­ur þú til dæm­is rætt við ljós­móður í meðgöngu­vernd eða í Ljáðu mér eyra (sem er viðtalsþjón­usta á Land­spít­al­an­um fyr­ir kon­ur sem hafa til dæm­is erfiða reynslu af fæðingu). En það er mjög mik­il­vægt að muna að annarra manna reynsla skipt­ir engu máli fyr­ir þig. Bara þín reynsla og líðan.

Það get­ur hjálpað að fara yfir ákveðna þætti sem geta auðveldað þér að ýta und­ir til­finn­ingu um stjórn og stuðlað að betri fæðing­ar­upp­lif­un. Til dæm­is velta því fyr­ir þér hvað þér finnst vera styðjandi? Hvernig er hægt að styðja við þig í fæðing­unni? Þá bæði ljós­móðirin og stuðningsaðil­inn. Svo er gott að velta því fyr­ir þér hvað þú sjálf teng­ir til­finn­ingu um vellíðan. Hvenær líður þér vel, al­mennt? Við hvaða aðstæður? Ef þér líður illa, ert þreytt, illt í lík­am­an­um, eða veik, hvað finnst þér gott að gera? Finnst þér gott að fara upp í rúm og leggja þig? Fara í bað? Göngu­túr? Hafa ein­hvern hjá þér eða vera ein? Fá kannski hita­poka? Eða strok­ur eða nudd? Ef þér líður illa, ert til dæm­is föst í um­ferð og sein í próf eða á mik­il­væg­an fund. Þetta eru aðstæður sem þú nærð ekki að stjórna, hvað finnst þér þá gott að gera ? Anda djúpt og reyna að ná slök­un? Kveikja á tónlist? Tala við sjálfa þig um að þetta verði allt í lagi? Hvernig nærðu að slaka á und­ir miklu álagi? Þetta hjálp­ar þér að finna þín eig­in bjargráð og ýta und­ir til­finn­ingu um stjórn og vellíðan.

Þú get­ur líka hugsað út í hvað þú vilt sjálf gera til að finna fyr­ir ör­yggi og auka sjálfs­traust þitt, og mér sýn­ist þú ein­mitt vera að huga að þeim þátt­um núna með þess­ari fyr­ir­spurn og það er mjög aðdá­un­ar­vert.

Varðandi já­kvæðar staðhæf­ing­ar og að trúa þeim inn við beinið og þá þætti sem geta truflað þá, þá er ein­mitt talað um áhrif hug­ans og til­finn­inga í „hypnobirt­hing“ og hvernig þú get­ur losað ótta sem get­ur haft slæm áhrif á fæðing­ar­ferlið. Það er al­veg satt að áföll og ótti gagn­vart fæðing­unni get­ur haft áhrif á þína líðan og þín líðan get­ur haft áhrif á fæðing­ar­ferlið að vissu marki. Það eru ákveðnir þætt­ir sem við höf­um ekki stjórn á og þá er mik­il­vægt að sleppa tak­inu, halda áfram með ein­beit­ing­una, huga að sjálfri sér og sinni líðan með þeim bjargráðum sem þú hef­ur, biðja um þann stuðning sem þú þarft á að halda og koma auga á fal­legu augna­blik­in sem eru til staðar, jafn­vel í erfiðum aðstæðum. „Hypnobirt­hing“ og jóga eru frá­bær tæki til að ná góðri slök­un og sleppa tak­inu á erfiðari upp­lif­un og sætt­ast við þinn lík­ama og þykja vænt um hann og þig sjálfa. „Hypnobirt­hing“ og jóga eru líka frá­bær tæki til að ná góðri slök­un, ein­beit­ingu, vellíðan, til­finn­ingu um stjórn í næstu fæðingu ásamt góðum stuðningi.

Ég vona að ég sé ekki að vaða úr einu í annað en já elsku mútta, þú átt þér viðreisn­ar von fyr­ir fæðingu tvö og já þú get­ur átt hraðari og auðveld­ari fæðingu og þú get­ur átt dýr­mæt­ar ein­stak­ar stund­ir í fæðing­unni og fal­lega minn­ingu eft­ir næstu fæðingu. Ég vona að ég hafi lagt mitt af mörk­um við að leiðbeina þér með hvaða hætti þú get­ur und­ir­búið þig fyr­ir næstu fæðingu og ég vona að þú mun­ir upp­lifa góðar stund­ir, vellíðan og að þú mun­ir upp­lifa þig fá þann stuðning sem þú þarft og þannig eiga góða fæðing­ar­upp­lif­un.“


61 views0 comments

Recent Posts

See All

Legbotnsmælingar, eru þær nákvæmar?

Hversu ná­kvæm­ar eru leg­botns­mæl­ing­ar? Eru þær ekki ein leið til að fylgj­ast með stærð fóst­urs­ins og bregðast við ef barnið er...

Hlustun fósturhjartsláttar

Góðan dag. Mig lang­ar að spyrja hvort það sé eðli­legt að það er ekki hlustað á hjarta­slátt í 10 vikna skoðun hjá ljós­móður? Sæl og...

コメント


Hafa samband

Skjólstæðingar okkar geta haft samband við okkur á instagram eða með tölvupósti

Takk fyrir póstinn! 

  • Instagram
  • White Facebook Icon
lifidljosa@gmail.com
Lífsgæðasetrinu (St. Jó)
Suðurgötu 41
220 Hafnarfirði

 
LJÓSA_útlínur.png
bottom of page