Helga Reynisdóttir ljósmóðir svarar spurningum lesenda mbl.is um allt sem tengist meðgöngu og fæðingu. Hér svarar hún spurningu konu sem á von á sínu fyrsta barni og vill upplifa fullkomna fæðingu.
Mig langar mikið að upplifa hina fullkomnu fæðingu. Ég er búin að vera á meðgöngu-jóga-námskeiði þar sem það virðist vera hægt að anda sig í gegnum fæðinguna. Er það raunhæfur möguleiki að fara alveg allslaus í gegnum fæðingu? Án verkjalyfja, glaðlofts og mænudeyfingar? Ég á von á mínu fyrsta barni og er mjög spennt fyrir fæðingunni.
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina. Það er gott að heyra að þú sért að sækja námskeið og hugsa um heilsuna og undirbúa þig fyrir fæðinguna.
Hvað varðar spurninguna þína er svarið já, það er vel hægt að fæða barn án verkjalyfja og hafa konur gert það frá örófi alda og í dag á mörgum stöðum í heiminum bjóðast konum ekki verkjalyf í fæðingu. Þegar sóttin hefst þá seytir líkaminn hormónum og eru þar helst í hlutverki þrjú hormón, oxýtocin, endorfín og noradrenalín eða adrenalín.
Sé fæðingin án alla inngripa þá hjálpa þessi hormón við fæðingarverkina, þar má helst nefna hormónið endorfín sem hefur oft verið kallað okkar náttúrulega morfín. Seyting þessara hormóna eykst jafnt og þétt í fæðingunni og nær hámarki við lok hennar. Við ljósmæður upplifum að konur fari „inn á við“ þegar þær nota ekki önnur verkjalyf og er það vegna samspils þessara hormóna á fæðingarferlið.
Einnig eru í boði aðrir valkostir en verkjalyf eins og nálastungur, vatnsbólur, að nota TNS-tæki og tónlist. Þá er í boði glaðloft og bað sem reynist mörgum konum mjög vel. Endilega skoðaðu það ef það er eitthvað að sem þú getur hugsað þér.
Það sem þú getur gert til þess að undirbúa þig sem best er að sækja t.d. fæðingarfræðslunámskeið með maka þínum. Það er líka mjög gott fyrir þig og maka þinn að fara saman yfir það hvernig þið viljið hafa hlutina, hvað þið viljið og hvað ekki. Það er samt nauðsynlegt að hafa það í huga að stundum fara hlutirnir öðruvísi en maður ætlar sér. Maður verður að vera sveigjanlegur, þolinmóður og jákvæður þegar kemur að fæðingu. Um að gera að vera opin og ekki búin að ákveða of mikið. Og þó svo að maður sé búin að ákveða eitthvað þá má líka alltaf breyta til og gera eitthvað allt annað.
Gangi þér sem allra best, vonandi færðu þína draumafæðingu.
Comentarios