Sæl Helga.
Ég er að velta fyrir mér varðandi bóluefnið gegn Covid-19, hef beðið spennt eftir að fá það en finnst svo misvísandi upplýsingarnar um hvort ófrískar konur megi þiggja það.
Ég er gengin stutt, um 12 vikur. Veistu hvort ég má fá bóluefnið?“
„Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Þar sem um er að ræða nýtt bóluefni er lítið um reynslu um notkun þess á meðgöngu en þungaðar konur voru ekki með í klínískum prófunum á bóluefninu. Þó benda dýrarannsóknir ekki til áhrifa á fóstur, fæðingu eða þroska eftir fæðingu.
Þetta snýst allt um að meta ávinning og áhættu. Því er best að ráðfæra sig við þinn lækni þar sem tekið er mið af meðgöngulengd og ávinningnum fyrir þig að þiggja eða þiggja ekki bólusetningu. Það sama á við um konur með barn á brjósti.
Ég skil að þér finnist vera misvísandi upplýsingar um efnið en heilbrigðisþjónusta enska ríkisins (NHS) mælir með að konur sem ætla sér að verða þungaðar innan þriggja mánaða, eru þungaðar eða með barn á brjósti bíði með að þiggja bólusetningu. Að sama skapi mælir AOCG (The American College of Obstetricians and Gynecologists) með að halda ekki bólusetningum frá konum sem eru þungaðar og í áhættuhópi eins og framlínustarfsmönnum.
Samkvæmt könnun Maskínu ætla um 92% þjóðarinnar að þiggja bóluefni og verði af því ætti að nást hér gott hjarðónæmi þegar bóluefnið hefur allt borist hingað. Þangað til þarf að halda áfram að gæta ýtrustu varúðar og huga vel að sóttvörnum.
Gangi þér vel.“
Kommentare