Fyrirspurn af mbl.is
Sæl.
Er með barn á brjósti. Það gengur mjög vel. Er stundum að lenda í því að brjóstakirtlarnir í handakrikanum bólgna upp. Hver er besta leiðin til að laga þessar bólgur? Hef nuddað, farið í sturtu og losað um með því að leggja barnið á brjóst.
Kveðja
þriggja barna mamma.
Sæl þriggja barna mamma og takk fyrir fyrirspurnina.
Mér sýnist á spurningunni þinni að þú sért í raun að gera allt rétt. Mjólkurkitrlarnir sem eru í handakrikanum eru eins og þeir sem eru í brjóstinu. Það þarf að losa úr þeim eins og úr öðrum mjólkurkirtlum. Ef mjólkurlirtlar verða aumir og bólgnir geta þeir verið að stíflast. Þú gerir rétt með því að nudda og leggja barnið á brjóst. Passaðu bara að nudda varlega, nudda í átt að geirvörtunni og ekki of fast. Einnig gæti hjálpað að huga að stellingu barnsins þegar það er á brjósti. Barnið nær að losa best á þeim stað þar sem neðri kjálkinn snýr. Þá myndir þú gefa barninu í „fótboltastellingunni“ en þá snýr neðri kjálki barnsins að handakrikanum. Þannig ætti að verða meiri losun þar. Einnig myndi ég huga að því að vera ekki í brjóstahaldara sem þrengir að handakrikanum. Það getur einnig hjálpað að taka bólgueyðandi lyf þegar þú ert aum. Ef eymslin hverfa ekki og verða aumari og þú færð einnig hita eru líkur á að um sýkingu sé að ræða. Yfirleitt getur maður komið í veg fyrir þetta með þeim aðferðum sem eru taldar upp hér að ofan. En ef það lagast ekki þá er nauðsynlegt að leita til Heilsugæslunnar. Ef þetta hjálpar ekki myndi ég ráðleggja þér að tala við brjóstaráðgjafa. Ljósmóðir eða hjúkrunarfræðingur í ungbarnavernd ætti að geta komið þér í samband við hann.
Gangi þér vel.
Hildur Sólveig Ragnarsdóttir.
Comments